Flötur
Samtök stærðfræðikennara
shadow shadow

Verkefnabanki

Til kennara

Hvernig má nota stærðfræði við handavinnu, til að skipuleggja matarboð og til að ákvarða handboltalið?

Tekinn hefur verið saman verkefnabankinn í tilefni af Degi stærðfræðinnar 2007. Meginviðfangsefni verkefnanna er nemendur setja upp stærðfræðileg líkön og nota þau til að leysa vandamál sem spretta upp í daglegu lífi. Stærðfræði má m.a. nota til að vinna að lausn skipulagsvandamála og til að setja upplýsingar skipulega fram.

Verkefnin eru ekki mjög formleg og ekki unnið með formlega framsetningu stærðfræðilegra líkana. En ferlið sem nemendum er ætlað að fara í gegnum byggir á notkun líkana. Það felst í að skoða raunverulegt vandamál, greina upplýsingarnar sem eru gefnar, stærðfræðigera þær, beita rannsóknum og útreikningum og meta síðan hvort stærðfræðilega niðurstaðan hjálpar til við að finna lausn á upphaflega vandamálinu.

Flest verkefnanna eru byggð þannig upp að fyrst kemur texti sem gott er að lesa með nemendum eða endursegja þeim. Þar er sagt frá þeim aðstæðum sem viðfangsefni verkefnisins sprettur úr. Til þess að tryggja að allir nemendur hafi náð nauðsynlegum bakgrunnsupplýsingum fylgja oftast lesskilningsspurningar úr textanum. Meginverkefnin eru oftast hópverkefni þar sem nemendur eiga að rannsaka og skipuleggja á grundvelli ýmissa upplýsinga. Mikilvægt er að gefa rými fyrir umræður um niðurstöður.

Verkefnabankanum er skipt í þrjá hluta eftir aldursstigum. Oft er unnið með sömu hugmynd á öllum aldursstigum en verkefni löguð að aldri nemenda. Kennarar þurfa sjálfsagt að laga verkefnin nánar að eigin nemendahópum og aðstæðum á hverjum stað.

Verkefnabankinn er unninn af hópi kennaranema af stærðfræðikjörsviði í KHÍ. Í hópnum eru: Aðalheiður Helgadóttir, Eva Hrund Harðardóttir, Eva Lilja Sigþórsdóttir, Jónas Unnarsson, Margrét Rósa Haraldsdóttir, María Björk Gunnarsdóttir, Ósk Dagsdóttir Sigrún Dögg Pétursdóttir, Sólveig Jónsdóttir og Víðir Þórarinsson. Umsjónar- og ábyrgðarmaður er Guðbjörg Pálsdóttir, lektor við KHÍ.
 

Yngsta stig

Miðstig

Unglingastig
 

 þrautasamkeppni
 

horizontal bar
Flötur © 2006 Upphafssíða

Vefumsjón